28.6.2007 | 22:36
Sól sól skín á mig
Það má segja að sólin hafi látið á sér kræla í dag. Með þessu áframhaldi verður maður orðinn súkkulaði brúnn á nokkrum dögum. Þetta er kosturinn við að vinna á leikskóla, maður getur verið úti í sólinni á sumrin og inni í mesta kuldanum á veturna. Það er ekki laust við að maður vorkenni þeim sem vinna inni á svona góðviðris dögum.
Það er bara einn galli þegar sólin skín langt frameftir á kvöldin. Það er afskaplega erfitt stundum að koma litlum stubbum í rúmið á skikkanlegum tíma. Greyin skilja ekki hvers vegna í ósköpunum þau þurfa að fara að sofa þegar sólin skín hátt á lofti. Sem betur fer er litla daman mín frekar hlýðin þegar kemur að því að fara að sofa. Auðvitað koma kvöld þar sem hún er sko alls ekki tilbúin að fara að sofa en yfirleitt er hún stillt og sofnar tiltölulega fljótt eftir að hún er lögst í rúmið.
Ef það er eitthvað jákvætt við allt þetta sólskin, annað en að maður verður brúnn og á auðvelt með að vakna á morgnana, er að maður þarf ekki að borða alveg jafn mikið og á veturna. Mér finnst það vera mikill kostur, sérstaklega fyrir svona matháka eins og mig sem finnst voðalega gott að borða. Þetta vegur uppá móti því þegar svartasta skammdegið er og maður étur og étur í skammdegisþunglyndinu í þeirri von um að manni líði aðeins betur. En í raun líður manni ekkert betur heldur verður þunglyndari yfir því hvað maður er búin að borða mikið.
Jæja nóg af bulli í bili, ætla að kíkja aðeins á imbann....
...leiter aligeiter.........
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2007 | 21:28
Nú skal ég standa mig
Jæja ég hef tekið þá afdrifaríku ákvörðun að byrja að blogga aftur. Ég hef verið svo yfirgengilega löt við að kveikja á tölvunni síðustu mánuði að það hálfa væri nóg. Ég vona að þetta verði til þess að ég bæti mig í því.
Ég er að fara í sumarfrí um helgina. Get ekki beðið eftir því. Við ætlum að fara norður á Akureyri 20. júlí og vera í leiguíbúð í nokkrar nætur. Alltaf gaman að koma norður, sérstaklega þegar maður þekkir einhvern þar. Reyndar finnst mér alltaf notalegt að koma til Akureyrar, mér líður eitthvað svo vel þar, og svo er náttúrulega hægt að fá svo góðan ís þar
Jæja, læt þetta nægja í bili, þarf að fara að koma skottunni í rúmið, löngu kominn háttatími hjá henni.
Kveð að sinni....
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)